Dauði og útför van Gogh

Sáðmaðurinn, 1888

Ég kláraði bókina Líf og list van Gogh eftir Robert Wallace (1979) um daginn. Las hana í skömmtum þegar við vorum í heimsókn hjá tengdaforeldrunum. Það hafa eflaust verið skrifaðar betri bækur um þennan mikla meistara, en hún hafði samt nokkuð mikil áhrif á mig. Sérstaklega kaflarnir frá "Arles tímanum". Maður einhvernveginn skynjar hitann og andrúmsloftið í gegnum textann og myndirnar. Togstreita brjálæðis og snilldar.

Þegar ég var ungur og vitlaus sat ég einu sinni fyrir utan "Gula húsið" í Arles og drakk bjór. Í þessu húsi bjó van Gogh á tímabili. Ekki nóg með það, heldur bjó Gauguin hjá honum um stundarsakir líka. Mér fannst þetta ekkert sérstaklega merkilegt þá. Ég ætla að birta smá brot úr bókinni þar sem fjallað er um útför hans. Þá var hann komin til Auvers, norðan við París. Það gerði hann m.a. til að vera nær Theó, bróður sínum, sem studdi hann alla tíð. Théo dó úr sorg stuttu eftir dauða van Gogh. Þetta verður ekki mikið myndrænna en þessi lýsing:

 Klukkan 1 aðfaranótt þriðjudagsins, eða nærri 36 klst. eftir að Van Gogh skaut sig, sagði hann á hollensku:  "Mikið langar mig nú til að skreppa heim," svo leið hann út af. Hann var 37 ára og 4 mánaða gamall.
Sóknarpresturinn í Auvers neitaði honum sem sjálfsmorðingja um kirkjulega útför, en hún fékkst hjá prestinum í næsta þorpi. Margir af vinum Van Goghs komu til útfararinnar, og einn þeirra, málarinn Emile Bernard gaf þessa lýsingu á henni: "Nokkur síðustu málverk hans voru hengd upp á veggina, þar sem lík hans stóð uppi. Þau mynduðu einskonar geislabaug um hann, og í skærleika snilldarinnar, sem ljómaði út frá þeim, varð dauði hans enn átakanlegri fyrir okkur listamennina. Kistan var klædd einföldum dúk og þakin blómum. Þar voru sólblómin, sem hann hafði elskað svo mjög, glæsifíflar og gul blóm voru ríkjandi. Það var eftirlætislitur hans, eins og þú manst, tákn ljóssins, eins og í hjörtum mannanna og í listaverkunum. Skammt frá honum stóð líka málaratranan hans, en stóll hans og penslar stóðu á gólfinu framan við kistuna... Klukkan þrjú var líkami hans borinn út. VInir hans báru hann til grafar. Sumir grétu, einkum þó Theódór van Gogh, sem alla tíð hefur dáð bróður sinn og stutt dyggilega í baráttu hans fyrir listinni og sjálfstæðinu. Hann grét stöðugt og bar sig mjög illa. Úti skein sólin æsilega heit. Við héldum upp á nöfina ofan við Auvers og töluðum saman um hann,  um djarfa framsókn hans í listinni, um þau stóru áform sem hann var svo uppfullur af, um allt það góða sem hann hafði gert okkur hverjum og einum. Við komum að kirkjugarðinum, litlum reit, marandi af nýjum legesteinum. Hann stendur uppi á nöfinni og horfir yfir akrana, sem bíða uppskerunnar, undir víðum og bláum himni, sem hann kynni að hafa elskað. Svo var hann látinn síga niður í gröfina. Hver hefði geta varist gráti á þeirri stundu, dagurinn var alltof mikið að hans skapi, til þess að við gætum komist hjá að hugsa um, að hann gæti enn lifað hamingjusamur."
Kveðja, Bjarni

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Negri í Þistilfirði

Bikarmót #1 - 2023 - Recap