Var fyrst núna að finna valmöguleika á hlaup.com um að fá allar tölur um æfingar yfir á Excel. Þvílíkur happafundur fyrir nördinn í mér. Ég byrjaði í nóvember 2010 (sést ekki á stöplaritinu) en var búinn að vinna mig upp í 100 km á mánuði í janúar eins og sést. Síðan sést greinilega hvernig ég smám saman bætti í þar til ég krassaði með biluð hné í júní. Vegalengdirnar segja reyndar ekki alla söguna, heldur of mikill hraði og álag. Maður verður fyrst að byggja góðan grunn, það tekur tíma og er þolinmæðisverk. Síðan hef ég verið að bæta í aftur, sundið kom aðeins inn í október, rjúpnaganga í nóvember og svo keypti ég hjólið í desember. Nú horfir allt til betri vegar, bullandi hláka með uppstúf.
Í tilefni óveðurs í gær ákvað ég að best væri að fara út að hjóla. Færðin var svona upp og ofan en ég komst klakklaust frá þessu. Maður hefur alltaf heyrt að bílstjórar gefi skít í hjólreiðamenn og svíni á þá. Sú hefur nú ekki verið raunin hér í vetrarfærðinni á hraðbrautum Sauðárkróks og lofa ég ökumenn þessarar sýslu í hástert. Fékk þó eitt feitt svín á mig í gær og hefði gefið puttann ef ég hefði ekki mátt hafa mig allan við að hanga á hjólinu (hefði svo sagt "þarna fékk hann það sko óþvegið"). Það verður forvitnilegt hvernig gengur svo að hafa sig af stað í vinnu á morgnana hjólandi.
Kom svo við í sundlauginni á hjólinu til að busla eins og bundinn klaufi. Hef verið í mikilli sjálfsvorkun út af þessu sundi upp á síðkastið. Hef jafnvel látið mér detta í hug að foreldrar mínir hafi látið græða í mig lærleggi úr stáli og að ég muni aldrei synda eða keppa í þríþraut. Ég var farinn að plana útför að víkingasið fyrir sunddótið mitt, blöðkurnar, baujuna og sundgleraugun. Var búinn að finna álitlega knörr á Ebay. Þá gerðist eitthvað. Skrapp aðeins í laugina í dag og gerði eitthvað "múv" sem var aðeins að virka. Ætla ekki að ganga svo langt að segja að þetta hafi verið andleg upplifun en ég hlakka til að fara næst og athuga hvort þetta hafi verið heppni.
Jæja ég er að stikna á lærunum.
Kveðja, Bjarni
Ummæli