Gröf og kaldir vetur
Það er mjög auðvelt að leika sér með ýmis gögn, jafnvel setja þau upp myndrænt til að villa um fyrir- eða ljúga að fólki. Það eru til heilu bækurnar sem fjalla um þetta og má m.a nefna bókina „How to lie with statistics“ eftir Darrell Huff sem kom út árið 1954 og er einhver mest selda tölfræðibók allra tíma. Ég tek þó fram að ég hef ekki lesið hana.
Stundum gleymir maður þessu og kokgleypir illa matreidd gögn og gröf úr fjölmiðlum sem gefa ekki rétta mynd af ástandinu. Maður verður að fá almennilega yfirsýn yfir lengri tíma og læra að „trúa“ aldrei neinum línu- og/eða myndritum nema að maður skilji gögnin sem eru á bakvið myndina. En hvað er ég að tala um? Tökum dæmi af einhverjum ímynduðum fiskistofni. Hægt væri að birta Mynd 1. og segja sem svo, „Stofninn er í mikilli uppsveiflu og því ætti að vera óhætt að fara að veiða meira“.
Mynd 1. Stofnstærð einhvers ímyndaðs fiskistofns. |
Mynd 2. Stofnstærð ímyndaðs fiskistofns yfir lengra tímabil. Rauði ferningurinn táknar fyrr grafið |
Mynd 3. Sömu hitastigsgögnin birt með mismunandi hættii |
Annars kviknuðu þessar pælingar hjá mér vegna þess að ég var að gramsa í gömlum annálum og lesa aðeins um veðurfar og hvernig fólkið hafði það seint á 18. öld hérna á Íslandi. Að lesa þessar lýsingar setur allt krepputal í annað samhengi og maður fer að velta því fyrir sér að sjálfsagt ætti maður að vera duglegri við að líta um öxl, eða fara upp á hól og líta yfir sviðið. Maður þarf ekki að lesa margar blaðsíður í þessum annálum til að átta sig á því að fólkið sem byggði þetta land voru engir aumingjar. Við sjáum bara alltaf svo litla mynd af grafinu í einu, svo ég setji þetta nú í samhengi við þessa myndbirtingu mína hérna áðan. Hvað er að hafa það gott? Við hvað eigum við að miða?
Í Espihólsannál, ANNALES ISLANDICI, 1400-1800, (Hið Íslenzka Bókmenntafélag, 1957) segir meðal annars að árið 1781 hafi veðrátta frá nýári og fram á góu verið ærið góð, þaðan af stríðari með umhleypingsfjúks- og áfreðahríðum, so oftar var annað dægur regn, en annað frosthríð, og þessi veðurátt varað fram á sumarmál í Eyjafirði og Skagafirði. Sagt er frá því að fáeinar manneskjur hafi dáið úr hor í þessum sýslum (ekkert nánar tiltekið um fjölda). Síðan er rætt um fiskerí, sem var þokkalegt þetta ár. Við skulum svo grípa niður í textann þar sem rætt er um sjóskaða (bls.169):
„Þann 18. Sept. strandar svokölluð póstjagt, sem þaðan skyldi með sér flytja góss til Kaupenhafnar. Þar drukknuðu 7 menn, sem á duggunni voru, og 11 menn aðrir af Eyrarbakka, sem hjálpa vildu jagtinni til hafnar, meðal hverra var assistent Jón Jónsson Vídalín frá Laufási. Góss týndist þar einnieginn.“
Áfram er haldið í upptalningu á sjósköðum og kemur þar m.a annars fram að Hans Emmerlef drapst úr vosbúð í Hrísey eftir langa siglingu í miklum ísum. Skipstapi varð á Skaga með fjórum mönnum og einnig drukknuðu 4 menn frá Reykjaströnd (í Skagafirði). Í Barðastrandarsýslu fórust 2 skip með 7 mönnum, þar af 4 bræður. Tvö skip fórust syðra, annað á Seltjarnarnesi, hitt við Stapa (fjöldi látinna ekki tilgreindur). Þann 21. desember týndist svo áttæringur í Keflavík undir Snæfellsjökli með 9 mönnum af holsjó undir segli. Einn skiptstapi í Beruvík með Jökli þar sem týndust 2 menn , 2 komust lífs af. Þrír bátstapar með mönnum sunnan Snæfellsjökuls (fjöldi látinna ekki tilgreindur). Bátstapi á Breiðdal austur með fjórum mönnum.
Þetta gera allavega 49 manns en búast má við að talan sé nær 60 eða 70 manns. Bara það sem hafið tók á þessu eina ári. Á síðustu 2 árum hefur einn maður farist á sjó við Ísland (vona að ég fari rétt með).
1784 var að því ég best fæ séð ekkert sældarár enda veturinn afskaplega harður. Um það segir m.a (bls. 179):
„Vetur var hinn bágasti með allt slag. Var þá ís fyrir norðan allt land og ófært skipum. Horfðist á til mannfalls, þegar búið var að eta þær dauðhoruðu skepnur upp, hvað og skeði, því þá sótti á útmánuði, gjörðist so mikið mannfall á fátæku fólki einkum, að varla heyrðist annað dag hvern, af hungri, dysenteria eður blóðsótt og fleirum eldgangsins leifum, þar áður voru hross hartnær alfallin ásamt öðrum skepnum. Var þó gott fiskerie fyrir vestan Jökul og sæmilegt víðar.“
Skólapiltur er sagður hafa fótbrotnað eftir að klukka datt ofaná hann í Skálholti og Skeiðarárjökull hljóp fram með vatnavöxtum og eldi. Síðan er minnst á mikinn drífusnjó sem kom í febrúar, þá fórst Sigfús á Syðstabænum þegar hann fór niður um lagnaðarís á Hríseyjarál. mikill jarðskjálfti þann 15. Februari. En grípum niður í textann þegar farið er að fjalla um sjúkdómana aftur (bls. 180):
„Þetta ár varð vart við ýmsa sjúkdóma. Þeir menn, er dóu um vorið úr hor og blóðsótt, stirðnuðu ekki, og fyrir klaka og áfreðum gat jörð ekki sprottið, jafnvel þó heyið yrði notabetra en hið fyrra ár. En það varð mönnum að stóru gagni, að skipin og matvörur komu jafnvel venju framar, þó ólíklegt mætti þykja á Noðurlandi, vegna íssins, og það var nú hin helsta lífsbjörg, því áður var etið allt, hvað tönn á festi, so sem skóbætur, horn og jafnvel af sumum hundar, að ég tala ekki um hrossakjöt, sem var almenn fæða, meðan fékkst jafnvel úldið og stórskemmt.“Þarna erum við að tala um að fólk var að drepast úr vosbúð og hungri í stórum stíl. Ef þetta er svo ekki nóg, þá er talið að um 4000 hestar hafi fallið í Skagafirði og beinin m.a verið notuð í eldivið. Ef við viljum svo reyna að ímynda okkur hvernig ferðalög milli bæja og sveita gengu fyrir sig á þessum tíma nægir að nefna, að árið 1772 urðu 23 menn úti bara á Suðurlandi.
Það mætti svo sem gagnrýna mig fyrir að handvelja bara vondar fréttir úr annálum til að láta líta út fyrir að allt hafi verið í voða og djöfli og nú sé allt frábært. Það virðist þó ekki hafa ratað mikið af jákvæðum fréttum í annála þessa tíma, allavega ekki það sem ég hef lesið. Á stöku stað er þó nefnt að mannheillir hafi verið góðar. Einnig nokkuð talað um vígslur presta, biskupa og embættistökur hjá fínna fólki. En mér finnst þetta þó sýna hversu mikið tímarnir hafa breyst og maður ætti stundum að kvarta minna.
Kveðja, Bjarni
Ummæli