Himnaríki eða helvíti

Þegar ég kom keyrandi heim í Brekku frá Akureyri seinnipartinn í dag var veður með besta móti. Brennandi vorsólin skeit, eins og Meistari Megas orðaði það svo fallega og sunnanvindar voru í hæfilegum hlutföllum við sjálfa sig. Í grasinu blundaði samt illska og beið færis. Það tók fljótlega að lygna og ástandið færðist úr því að vera eins og í nýrómantísku sveitasælukvæði yfir í fullkomna óreiðu. Sauðfé sem hafði bitið og skitið í sátt við guð og menn í túnfætinum óð nú um organdi í fullkomnu stefnuleysi. Lamblausar skepnur með blóðrisa júgur og bólgna augnkróka tróðu sér ofan í allar holur, undir bíla og kerrur eða forðuðu sér til húsa.

Ég vil óska öndum og fiskum til hamingju með daginn en ætla að halda mig innivið næstu daga ef það verður logn. Ég þoli mýið vel en nú er vargurinn mættur í slíku magni að engin hér hefur komist í snertingu við annað eins kjaftæði. Hann er ekki bara þykkur, hann er grimmur og hann bítur líka innandyra sem er leiðinleg tilbreyting. Ég ætlaði að setja inn einhverjar myndir til að útskýra ástandið í dag en netið hér er eitthvað að kúka upp á bak og ég set myndirnar inn síðar.

Kveðja, Bjarni

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Útivera

Bikarmót #1 - 2023 - Recap

Negri í Þistilfirði